Fréttatilkynning frá Geðhjálp.

Geðhjálp gaf út fréttatilkynningu þann 25. mars s.l. er fréttatilkynningin til komin vegna útgáfu bókar Héðins Unnsteinssonar  ,,Vertu úlfur".  Útgáfa bókarinnar er fagnaðarefni og eins og segir í fréttatilkynningunni þá varpar bókin hulunni af veikri réttarstöðu og brotalömum í þjónustu við einstaklinga með geðræna erfiðleika og aðstandendur þeirra í íslensku samfélagi.  Réttarstaða einstaklinga með geðrænan vanda hér á landi er slæm og hafa sumir einstaklingar svipaða sögu að segja og Héðinn um brot á réttindum einstaklinga með geðræna erfiðleika og hvetur Geðhjálp stjórnvöld til að skipa eftirlitsnefnd að danskri fyrirmynd í málefnum þessa hóps gagnvart heilbrigðiskerfinu.  Danska eftirlitsnefndin er skipuð þingmönnum og byggir á 71.gr dönsku stjórnarskrárinnar.  Nefndin tekur bæði við kærum frá sjúklingum og á frumkvæði að úttektum á þjónustu einstakra stofnana á geðheilbrigðissviðinu.  Í fréttatilkynningu Geðhjálpar segir einnig að önnur leið til að stuðla að bættu réttaröryggi einstaklinga með andlega erfiðleika og annarra sjúklinga gæti falist í stofnun umbosmanns sjúklinga og hafa Geðhjálp, Öryrkjabandalagið og SÍBS þegar farið þess á leit við heilbrigðisráðherra að slíkt embætti verði stofnað.  Það er bráðaðkallandi að réttaröryggi sjúklinga verði tryggt, það gengur ekki að yfirvöld vísi á landlæknisembættið því það virkar eins og hagsmunagæslufélag lækna sem kemur sjúklingum ekki að neinum notum.  Í fréttatylkinningunni segir einnig að bókin ,,Vertu úlfur" varpi ljósi á tækifæri stjórnvalda til að draga úr ofbeldi gagnvart einstaklingum með geðræna erfiðleika innan geðheilbrigðisþjónustunnar í yfirstandandi vinnu við endurskoðun lögræðislaga.  Enginn annar einstakur sjúklingahópur býr við sambærilega ógn af ofbeldi og þvingun í heilbrigðisþjónustu og einstaklingar með geðrænan vanda af gildandi lögræðislögum.  Samfélaginu ber skylda til að aflétta þessari ógn af einstaklingum í þessum hópi með því að stuðla að viðeigandi breytingum hið fyrsta.  Þar ber hæst að skipað verði þverfaglegt teymi til að mæta sjúklingi í geðrofi og stuðla að því að ekki sé gripið til lögregluvalds til að færa sjúkling á sjúkrahús.  Síðast en ekki síst ber að stuðla að því að nauðung í læknisþjónustu verði aflétt. Dæmin segja sína sögu um að ofbeldi er í öllum tilfvikum óþarft þegar læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk sinnir störfum sínum af faglegum hætti og við fyrsta flokks aðstæður.  Stjórn Geðhjálpar leggur að lokum til að átak verði gert í að vinna gegn fordómum gagnvart einstaklingum með geðræna erfiðleika bæði meðal almennings og fagfólks bæði í heilbrigðis og velferðarþjónustu.  Alltof mörg dæmi eru um að einstaklingar með geðræna erfiðleika njóti ekki sannmælis, lagalegra réttinda og viðeigandi þjónustu vegna fordóma í samfélaginu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband