15.3.2015 | 10:58
Ný geðheilbrigðisstefna
Það hefur áður komið fram hér á blogginu að það er ný geðheilbrigðisstefna á teikniborðinu, á næstu dögum eða vikum munu koma fram tillögur að nýrri geðheilbrigðisstefnu. Það er ómögulegt að segja til um hvað felst í nýjum tillögum, en það er ljóst að það er margt sem þarf að breytast í geðheilbrigðiskerfinu ef við viljum ganga í takt við það sem best gerist. Málefni fanga með geðraskanir eru t.d. í algerum ólestri, á þeim vettvangi þarf nánast allt að breytast ef vel á að vera. Lögum um fáránlegt lögráðamannakerfi þarf að breyta ef það á að nýtast þeim sjálfræðissvipta. Persónulegu umboðsmannakerfi þarf að koma á laggirnar til að koma í veg fyrir óþarfa sjúkrahúsdvalir og til að færa þjónustuna af sjúkrahúsi og yfir í nærumhverfi einstaklingsins. Það þarf nauðsynlega að endurskoða sjálfræðissviptingarferlið frá grunni og lögum sem því tengist, með það fyrir augum að gerendur geri sér betur grein fyrir hvað felst í sjálfræðissviptingu til að þeir átti sig á hve ábyrgð þeirra er mikil. Fjölga þarf samfélagsgeðteymum eins og þeim sem eru starfandi í Breiðholti og vesturbæ. Gera þarf fólki mögulegt að leita eftir þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga með niðurgreiðslu eins og tíðkast með geðlækna. Ráða þarf fleiri sálfræðinga inn á heilsugæsluna og geðdeildir til að fjölga meðferðarúrræðum og jafna valdahlutfallið milli geðlækna og sálfræðinga í geðheilbrigðiskerfinu. Jafna þarf hlutfallið milli lyfjameðferðar og samtalsmeðferðar með því að fjölga sálfræðingum í geðheilbrigðiskerfinu. Byggja þarf upp stuðningsnet í kringum foreldra með geðraskanir svo þeir geti sjálfir séð um uppeldi barna sinna. Verja þarf meiri fjármunum í að kynna geðsjúkdóma og í forvarnir sem eru engar sýnilegar af hálfu yfirvalda í dag. Það bráðvantar umboðsmann sjúklinga sem sinnir eingöngu réttindamálum sjúklinga. Það þarf að fara ofan í saumanna á öllu er tengist sjálfsvígum og koma á laggirnar forvörnum og sjálfsvígsvakt, á ári hverju falla um fjörutíu einstaklingar fyrir eigin hendi. Framangreindir þættir sem þarf nauðsynlega að vinna markvisst í eru bara sýnishorn af því sem þarf að vinna í á næstu mánuðum og árum. Yfirvöld hafa verk að vinna í geðheilbrigðismálum, yfirvöld þurfa að setja langtímamarkmið og skammtímamarkmið í þessum málaflokki sem snertir alla þjóðina með einum eða öðrum hætti. Vonandi verður ný geðheilbrigðisstefna aðeins fyrsta skrefið í að gera geðheilbrigðiskerfið það gott að það jafnist á við það sem best gerist. Oft kosta breytinga ekki mikla peninga heldur fagmennsku, markviss vinnubrögð og metnað vonandi einkennist ný geðheilbrigðisstefna að metnaði og vilja til breytinga.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.