1.3.2015 | 11:53
Geðmeðferð utan sjúkrahús
Ríkjandi meðferð við geðsjúkdómum síðustu áratugi hefur verið tengd sjúkrahúsum og enn í dag er treyst mikið á sjúkrahúsdvöl þegar um geðsjúkdóma er að ræða. Það er gamaldags og barn síns tíma að styðjast svona mikið við sjúkrahúsdvöl sem aðal úrræði við geðsjúkdómum. Þetta minnir óneytanlega á gamla tíma í málefnum fatlaðra þegar öllum fötluðum einstaklingum var hrúgað inn á stofnanir. Vissulega eru margir sjálfstætt starfandi sérfræðingar á eigin stofu úti í bæ með marga einstaklinga á sínum vegum. En það eru líka margir einstaklingar inni á sjúkrahúsi sem eru betur komnir í meðferð fyrir utan sjúkrahús. Það eiga aðeins alvarlegustu tilfellin að vera í meðferð inni á rándýru sjúkrahúsi en því er ekki þannig varið í dag. Meðferð geðsjúkra í dag einkennist af stórum hluta af gamaldags lyfjagjöfum og sjúkrahúsdvölum þegar meðferð víða í nágrannalöndum er óðum að færast yfir í nærumhverfi einstaklingsins með fjölbreyttari úrræðum en tíðkast hér á landi. Það er þó komin vísir að nútímalegri viðhorfi til geðmeðferðar með samfélagsgeðteymunum í Breiðholti og vesturbæ en það vantar fleiri úrræði eins og persónulegan umboðsmann. Meðferð getur farið fram í miklu ríkara mæli í nærumhverfi einstaklingsins en tíðkast í dag, það vantar hugarfarsbreytingu hjá geðlæknum sem hafa ríkjandi áhrif á geðmeðferð hér á landi. Það er ekki bara að sjúkrahúsdvöl er beitt í of ríkum mæli hér á landi heldur eru lyfjagjafir allt of algengar þegar góður árangur næst með margskonar samtalsmeðferð. Hvers vegna er þróunin svona hæg í geðlækningum hér á landi og hvers vegna er ennþá svona mikið um lyfjagjafir og sjúkrahúsdvalir þegar önnur úrræði hafa gefið góða raun. Ég vil meina að menntun geðlækna sé helsti dragbíturinn á þróunina, grunnmenntun geðlækna er almenn læknisfræði þar sem allt gengur út á lyf og sjúkrahús. Ég vil halda því fram að þessi grunnmenntun hafi þau áhrif að geðlæknar styðjast mikið við lyfjagjafir og sjúkrahúsdvöl. Ég vil hiklaust halda því fram að þróun í meðferð geðsjúkdóma utan sjúkrahúsa sé mun hægari vegna grunnmenntunnar geðlækna. Sálfræðingar eru með annarskonar menntun en geðlæknar enda stunda sálfræðingar hugræna atferlismeðferð og samtalsmeðferðir sem hafa gefið góða raun á meðan geðlæknar eru á kafi í lyfjameðferð og sjúkrahúsdvölum. Sálfræðingar hafa ekki sömu áhrif og geðlæknar í geðheilbrigðiskerfinu, þess vegna er svona mikið um lyfjagjafir og sjúkrahúsdvalir og þróun hæg í að færa þjónustu og meðferð í nútímalegra horf.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.