21.10.2014 | 15:14
Ungt fólk með tvíþættan vanda.
Þann 23. Oktober n.k. verður haldið málþing á vegum Olnbogabarna og Geðhjálpar, yfirskrift málþingsins er Börn og ungmenni með tvíþættan vanda. Það taka fjölmargir fagaðilar til máls og að auki munu fjórar ungar konur deila upplifun sinni af geðsjúkdómum, vímuefnaneyslu og kerfinu. Ég las viðtal við þessar fjóru ungu konur í blaði Geðhjálpar sem kom út þann 9. Oktober s.l. Það er átakanlegt þegar börn niður í tólf ára aldur ánetjast vímuefnum og eru jafnvel djúpt sokkinn um fjórtan ára aldur. Það kemur fram í viðtölunum við þessar glæsilegu ungu konur að þær áttu ýmislegt sameiginlegt áður en þær fóru kornungar út í neyslu vímuefna. Einhverjar höfðu farið á BUGL átta til níu ára gamlar en fannst sú meðferð ekki nógu einstaklingsmiðuð. Þær segja að það sé eitthvað undirliggjandi þegar mjög ungt fólk fer út í neyslu eiturlyfja. Það er raunin með þessar ungu konur, áður en þær fóru út í neyslu glímdu þær við geðrænan vanda. Við tólf ára aldur var vandinn orðin tvíþættur þegar við bættist vímuefnaneysla. Einhverjar af þessum ungu konum fengu ekki greiningu fyrr en komið var undir tvítugt þrátt fyrir að hafa þvælst um í kerfinu í mörg ár. Það er erfitt að greina hvað er orsök og afleiðing þegar vímuefni eru annars vegar, það er líklega ástæðan fyrir því að greining kemur ekki fyrr en fólk er orðið edrú. Við átján ára aldur varð breyting þegar þær voru komnar á eigin vegum. Eftir að hafa þvælst um í kerfinu í mörg ár fram að átján ára aldri þá tóku við erfiðleikar við að fá tíma hjá geðlækni eftir að átján ára aldri var náð. Það er enginn ein stofnun sem heldur utan um ungmenni sem eiga við tvíþættan vanda að glíma heldur þvælast þau á milli stofnanna til átján ára aldurs. Við átján ára aldur tekur lítið við nema erfiðleikar við að fá tíma hjá geðlækni. Það vantar stofnun sem sinnir aldrinum 18 -25 ára með tvíþættan vanda. SÁÁ er ekki lausn og það er hæpið að blanda þessum aldurshópi saman við eldra fólk á fíknigeðdeild. Eins og segir í blaði Geðhjálpar þá hafa geðsjúkir setið eftir á margan hátt. Geðheilbrigðiskerfið hjá okkur er á engan hátt í stakk búið til að sinna öllum sem á þurfa að halda. Kerfið er á margan hátt barn síns tíma, það vantar eina samræmda heildarsýn frá barnageðdeild og upp allan aldursskalann. Það vantar stofnanir sem tengjast og sem sinna mismunandi þörfum svo koma megi í veg fyrir að fólk falli á milli stofnanna . Það vantar kynningar á geðsjúkdómum og forvarnir vantar algerlega. Það er ný geðheilbrigðisstefna á teikniborðinu og ekki vanþörf á, hvenær hún lítur dagsins ljós veit ég ekki en oft hefur verið þörf en núna er nauðsyn.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Heimspeki, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.